12.9.2010 | 12:23
Fullkominn starfsferill.
Geir gerði engin mistök, það var ekki honum að kenna að bankakerfið hrundi, það var ekki honum að kenna að seðlabankinn varð gjaldþrota. Það var ekki hans hlutverk að koma í veg fyrir að almenningur yrði fyrir skaða. Það var ekki hans hlutverk að tryggja fjárhag ríkisjóðs, það var ekki hans hlutverk að sjá til þess að ríkisstofnanir sinntu eftirlitsskyldu sinni.
Hvert var hans hlutverk?
Hvert var hans hlutverk?
Röng niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Að styrkja völd sjálfstæðisflokksins. Það hefur alltaf komið á undan okkur aumingjunum í forgangsröðinni.
Rúnar (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 13:03
Þessi þingmannanefnd er öll í lýðskruminu. Þeir sem vilja hegna þessum ráðherrum skilja ekki rætur þessarar kreppu. Margir tala um hrunflokka en gleyma því að hrun varð líka annars staðar. Var hrunið erlendis íslensku "hrunflokkunum" að kenna?
Auðvitað eiga ráðherrar að bera ábyrgð á sínu, þannig verður það að vera. Ráðherrar eiga hins vegar ekki að bera ábyrgð á gjörðum stjórnenda einkafyrirtækja. Ráðherrar gátu t.d. ekki stöðva Icesave reikninga Landsbankans vegna reglna EES. Eigum við þá ekki allt eins að setja fyrrum viðskiptaráðherra inn, var ekki olíusamráðið honum að kenna?
Rannsóknarnefnd alþingis segir að eftir 2006 hafi bankarnir í reynd verið dauðadæmdir. Hvers vegna á þá að refsa ráðherrum vegna einhvers sem þeir gerðu eða gerðu ekki árið 2008?
Um hæfi þessa fólk sem gegndi ráðherraembættum má deila en að gefa sér að það fólk hafi viljað landi og þjóð illt er auðvitað fráleitt. Ég efast ekki um að Sf telur hagsmunum Íslands best fallið innan ESB. Eigum við þá að setja það fólk í fangelsi þegar í ljós kemur, kannski 10 árum eftir að við göngum í ESB, að hagur okkar hefur versnað? Það er gagnslaust að hamast í fyrrum ráðherrum, slíkt kemur ekki í veg fyrir annað hrun vegna þess að rætur hrunsins liggja annars staðar, það skilja þingmennirnir ekki og það gerir þeirra vinnu stórgallaða.
Hvernig væri nú að einhver almennilegur blaðamaður spyrði þingmennina, alla sem einn, hvaðan þeir fjármunir komu sem allt í einu var hægt að lána um alla koppa og grundir? Ég efast um að margir þeirri viti svarið við þeirri spurningu núna og það er auðvitað meira en sorglegt.
Helgi (IP-tala skráð) 12.9.2010 kl. 18:23
Helgi, það varð hvergi hrun í þeim löndum sem við venjulega líkjum okkur við. Vissuleg er kreppa og samdráttur víðar en á Íslandi og stöku bankar hafa fallið en hvergi annar staðar í norður Evrópu hefur það haft áhrif á lífskjör almennings í líkingu við á Íslandi.
Að sjálfsögðu eiga ráðherrar ekki að bera ábyrgð á gjörðum einkafyrirtækja, en eftirlit með bönkum og efnahagsstjórn er ábyrgð ráðherra. Það verður að teljast sannað að hvoru tveggja brást hrapalega. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að þessir umræddu ráðherrar eða aðrir sem sæti áttu á Alþingi hafi viljað þjóðinni illt, en niðurstaðan er eftir sem áður að þessir þjóðkjörnu fulltrúar sem áttu að gæta hagsmuna almennings brugðust með öllu. Það fylgir því ábyrgð að takast á hendur æðstu embætti þjóðarinnar og það er ekki nóg að segja þegar allt er komið í óefni, ég vissi ekki, ég gat ekki og svo framvegis.Vanhæfni og stórkostlegt gáleysi getur haft jafn alvarlegar afleiðingar og ásetningur, því verður að gera kröfur um hæfni og kostgætni til þeirra sem veljast til ábyrgðarstarfa.
Ég tel að það sé kominn tími til að stjórnmálamenn taki afleiðingum gerða sinna og aðgerðaleysis síns. Fyrr en það gerist geta stjórnmálamenn haldið áfram að fara sínu fram og yppa öxlum þegar það kemur í ljós að þeir hafa brotið reglur eða hagað sér siðlaust.
Það að bankarnir hafi hugsanlega verið dauðadæmdir 2006 jafngildir ekki því að Seðlabankinn þyrfti að verða gjaldþrota og Icesave skuldir lendi á íslenskum skattgreiðendum. Mað ábyrgri stjórnun og eftirliti hefði verið hægt að minnka vandann verulega í stað þess að láta hann vaxa og vaxa og telja almenningi trú um að allt léki í lyndi.
Kjartan Björgvinsson, 12.9.2010 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.