12.2.2009 | 22:06
Hard Talk - soft in the head
Var að horfa á Hard talk viðtalið við fyrrverandi forsætisráðherra á http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/hardtalk/7885583.stm og vil gjarnan spyrja hr. Geir Haarde
Til hvers varst þú kosinn á Alþingi, var það eingöngu til að framfylgja reglum settum af EES?
Ég hélt að það væri til að setja lög sem gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.
Hvert er hlutverk forsætisráðherra?
Ég hélt að það væri að framfylgja lögum og reglum sem Alþingi setur og leggja fram frumvarp til laga til þess að bæta hag íslensku þjóðarinnar.
Hverjar svo sem reglur EES eru, er það að mínu mati fyrst og fremst hlutverk þjóðkjörinna fulltrúa íslendinga að sjá til þess að þjóðinni sé borgið. Ef að þarf að setja bönkum eða öðrum viðskiptaaðilum skorður til þess að koma í veg fyrir að hætta sé á hruni þjóðfélagsins þá verður að gera það, hversu erfitt sem það er.
Það að skýla sér á bak við reglur annarra og afsaka aðgerðaleysi sitt með því að vera bundinn af samningum við aðra aðila er hlægilegt, það getur verið að Evrópubandalagið hefði kvartað, beitt sektum eða öðru þvílíku, en það hefði hvorki hertekið Ísland eða gert það og fjölda fólks og fyrirtækja á Íslandi gjaldþrota.
Það virðist að auki vera að verða augljóst að stjórnvöld á síðustu mánuðunum fyrir bankahrunið í stað þess að grípa til óvinsælla, erfiðra en nauðsynlegra aðgerða, héldu niður í sér andanum og vonuðu að kúlan í rúllettunni myndi lenda á svörtu, því miður lenti hún á 0 og allir í heiminum töpuðu en engir eins mikið og íslendingar sem höfðu sett allt sitt á eina svarta tölu.
Allt tal um tæknileg smáatriði og ábyrgð annarra aðila svo sem eigenda og stjórnanda bankanna sem vissulega er mikil, bliknar hjá þeirri ábyrgð sem þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar bera og sérstaklega þeir sem veljast í ríkistjórn.
Og þú villt ekki biðjast afsökunar fyrr en eftir að rannsóknarnefnd sem ÞÚ áttir þátt í að skipa kemur með niðurstöðu.
Horfðu í kring um þig, hlustaðu á fólk, notaðu hagfræðimenntun þína og ef þú enn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ástæða til afsökunar, leitaðu þá til sálfræðings.
Að lokum vil ég árétta að ofanritað á að einhverju leyti við um alla þjóðkjörna fulltrúa íslendinga, einnig þá sem sátu í stjórnarandstöðu.
Kjartan Björgvinsson
Geir: Biðst ekki afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.