Leyndarmál, gagnsæi og fjölmiðlar.

Hvað varð um gagnsæið og allt upp á borðið. Nú virðist sem að það sé of erfitt fyrir (ó)stjórnvöld að lyfta málunum upp á borðið og þau velji því að grafa holu undir þau og fela allt sem hægt er að fela.

Upp á síðkastið hefur Icesave verið mikið til umræðu og fyrir hugsandi fólk er ómögulegt að meta hvort verið er að gera ein stærstu mistök Íslandssögunnar eða hvort niðurstaðan er skynsamleg. Öllu sem máli skiptir við það mat er haldið leyndu, af hverju. Steingrímur J. segir að það sé einfaldlega vegna þess að málið sé enn svo viðkvæmt. VIÐ VITUM ÞAÐ, þjóðin á að ábyrgjast greiðsluna, slík ábyrgð getur leitt til enn stærri krafa frá öðrum kröfuhöfum Landsbankans. Þjóðin á kröfu á að fá allar upplýsingar um mál sem getur leitt til verulegrar aukningar á greiðslubyrði einstaklinganna til samfélagsins.

Hvað getur verið viðkvæmt fyrir samningana, séð frá sjónarhóli íslendinga?

Krefjast bretar að við greiðum enn meira, ef sagt er frá kúgunaraðferðum þeirra?

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum, stjórn bankanna er vafin huliðshjúpi og þrátt fyrir nokkra umræðu á liðnum mánuðum virðist engin breyting í sjónmáli. Yfirlit yfir skuldastöðu ríkissjóðs er svo djúpt grafin á upplýsingasíðunni að maður þarf að vera bæði tölvusnillingur og endurskoðandi til að geta fengið botn í hana og svona má lengi telja.

HVERS VEGNA????? Hver hefur hag af upplýsingaleynd? Spyr sá er ekki veit.

Nú er þörf á samstöðu, hún skapast við að sem flestir geri sér grein fyrir stöðu mála og þar með geti unnið að lausn.

Almannatengsl stjórnvalda eru einfaldlega ekki til staðar, verkefnin eru stór og mikil og því er þörf á að sem flestir leggi hönd á plóg. í stað þess að loka sig af ættu stjórnvöld að sækja stuðning og vinnu hjá sem flestum, halda upplýsingafundi, skapa svið þar sem að almenningur getur fengið að taka þátt í lausnunum, t.d. með vefsíðu, opinni deild sem gæti fallið undir efnahagsráðuneyti þar seh haldnir yrðu fundir og ráðstefnur um einstök mál og málaflokka og unnið að lausnum. Að taka þannig á málunum gæti einnig gefið fjölda fólks sem nú er á atvinnu möguleika á að leggja sitt að mörkum til uppbyggingar.

Því miður er sambandsleysið ekki einskorðað við Ísland, ég bý í Danmörku og er oft spurður hvort þetta sé nú ekki bara allt komið í lag á Íslandi núna. Hér hefur ekki nokkur maður heyrt um Icesave eða fyrirhugaðan niðurskurð á íslenska velferðarkerfinu. Auðvitað eigum við ekki að haga okkur eins og betlarar en greinargerð um stöðu Íslands og stærð vandans myndi skapa velvilja og bandamenn. Í Danmörku og mörgum öðrum löndum er nefnilega tekið tillit til skoðana almennings. Það má vel vera að embættismenn og ráðherrar í ESB löndum lýti framhjá réttlæti til að verja kerfið en það gerir Hansen og Jensen ekki, sama gildir eflaust Scmidt í Þýskalandi, Jean Claude í Frakklandi o.s.fr.v. það er meira að segja möguleiki á að Jones í Bretlandi verji að einhverju leyti málstað Íslands, hann er allavega ekki ástfanginn af Darling og Brown.

Stríð vinnast á almenningsáliti, ekki eingöngu við samningaborðið, sölur verða til við auglýsingu og umtal. Munið það.

FJÖLMIÐLAR.

Það hefur oft verið talað um fjölmiðla sem fjórða valdið. Á Íslandi, þar sem hin þrjú völdin meira eða minna eru komin undir framkvæmdavaldið, dómsvaldið vegna beinna tengsla ráðherra við skipun dómara og löggjafarvaldið vegna undirlægjuháttar við flokksvaldið ásamt gallaðri stjórnarskrá sem gefur ekki minnihlutanum, sama hversu stór hann er vald til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu, er þetta vald mikilvægara en víðast hvar annar staðar.

Fjölmiðlarnir brugðust eins og allir hinir í aðdraganda efnahagshrunsins, það sem verra er þeir virðast lítið hafa lært.

Ég verð reyndar að hafa örlítinn fyrirvara á þessum skömmum þar sem að ég fylgist eingöngu með fjölmiðlum á netinu og það er mögulegt að yfirlit og eftirfylgni haf að einhverju leyti farið framhjá mér. 

Mér sýnist þó að flestir fjölmiðlar séu enn eins og margir á Íslandi í afneytun, við gerum eins og við höfum alltaf gert. Stórir og mjög langvarandi hamfarir hafa dunið yfir þjóðina en ríkissjónvarpið telur ekki þörf á neinum breytingum þess vegna. Við erum með Kastljós og Silfur Egils, það var nóg og hlýtur að vera nóg áfram.

Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa almenning og veita stjórnvöldum aðhald. Vikulegur eða hálfsmánaðrlegur þáttur, þar sem farið er yfir stöðuna í einstökum málaflokkum og hvaða þróun hefur verið síðan síðast og áherslan lögð á staðreyndir fremur en málæði stjórnmálamanna myndi sinna þessu hlutverki að mörgu leyti. Málaflokkarnir gætu t.d. verið:

Aðgerðaráætlun ríkistjórnarinnar.

Rannsóknir sérstaks saksóknara.

Rannsóknir fjármálaeftirlitsins.

Gjörningar nýju bankanna.

Staða atvinnulífsins.

Þetta myndi kosta töluverða vinnu en hún yrði markvissari og skila meiru til lengri tíma litið en æsifrétt hér og nöldur þar.

Með von um betri tíð og lægri vexti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband